Nú er ég...

meiddur :(
Önnur öxlin gaf sig endanlega á fimmtudaginn, en þær hafa báðar verið óþægar við mig undanfarin ár.
Gat þess vegna ekki verið með í 1/2 Ironman í Mosó í gær, stóð í staðinn vaktina við undirbúning, keppnisstjórn og tímavörslu.  Öfundaði félagana mikið af að fá að spreyta sig á þessari vegalengd hérna heima í þessu fína veðri.
Hljóp aftur á móti hálft maraþon í RM um daginn.  Fór rólega af stað og bætti síðan aðeins í eftir ca 7km.  Endaði á tæpum 1:38 og var bara sáttur með það.
Félagi Börkur skokkaði örlítið lengra en það núna um helgina og fór létt með.  Hann er alveg ótrúlegur drengurinn og sérstaklega gaman að því hvað hann leynir mikið á sér og er hógvær með þetta allt saman.  Allt tal um undirbúning og erfiðleika er í algjöru lágmarki, en auðvitað er hvoru tveggja til staðar í stórum skömmtum - en það er líka stór hluti af gamninu.
Fyndið að sjá hvað sumt fólk kommenterar á fréttir af svona afrekum eins og MontBlanc-hlaupi Barkar og 24klst hlaupi Gunnlaugs.  Setningar eins og "hvernig nennir fólk þessu" eða "þessi hefur alltof mikinn tíma" eða þessi klassíska: "þetta er bara rugl".
Auðvitað er þetta tómt rugl! En það er líka tómt rugl að klífa fjöll eða fara til tunglsins, en það hefur samt verið gert og mun vera gert aftur.
Það eru bara tvær góðar ástæður fyrir því að spreyta sig á svona áskorunum:  Af því þetta er þarna, og af því maður getur það (vonandi).  Þeir sem ekki skilja það eru annaðhvort í afneitun eða búnir að missa tengsl við mannlegt eðli.  Það er í eðli okkar að reyna við krefjandi hluti, hvort sem það er algjörlega nauðsynlegt eða ekki.  Sumir hlaupa í kringum fjöll en aðrir reyna að skrifa ljóð.  Í báðum tilfellum felst yfirleitt meiri ánægja í athöfninni en afrakstrinum.


Sumarfríið loksins búið?

Hvort kallar maður þetta sumarfrí eða æfingaleti?
Það byrjaði amk með frábæru sumarfríi, næstum 3 vikur í afslöppun á Spáni.  Síðan hefur maður verið að reyna að koma sér aftur í æfingarútínu en lítið gengið. 
Gafst síðan upp á því og greip í staðinn til gamallar og góðrar aðferðar, sem ég hef áður notað við þessar aðstæður: 
Sleppa bara æfingum en í staðinn keppa allt í drasl.
Þannig að síðan 1.ágúst er ég búinn að keppa í Íslandsmóti í fjallahjólreiðum, Íslandsmóti í Timetrial og Þingeyskri þríþraut :)
Framundan eru síðan hálfmaraþon í RM á morgun, hálfur Ironman í Mosfellsbæ viku síðar, og þannig áfram meira eða minna fram að Etape de Legende 23.sept í Frakklandi ;)

Á morgun hleyp ég til stuðnings Styrktarfélagi Krabbameinssjúkra Barna, til heiðurs Tjörva Frey vini okkar og hetju.  Ef einhverjir vilja bæta við það sem Glitnir þarf að punga út ef ég klára þetta þá er bara að fletta mér upp á marathon.is og heita á mig :)


Mývatnsmaraþon

... að baki.
Það var kalt og hvasst á Mývatni á laugardaginn þannig að maður var ekkert of spenntur fyrir að fara að skokka maraþon þann daginn.  En það stóð nú heldur ekki til að gera neinar rósir að þessu sinni þannig að maður brosti bara upp í vindinn og skokkaði af stað.
Rokið var ýmist beint á móti eða á ská fyrri helminginn, síðan kom góður kafli undan vindi fram að síðustu 3km sem voru beint upp í vindinn.
Ég fór rólega af stað, reyndi að stilla mig inn á 5mín pace, fann mér fljótlega tvo hlaupafélaga á svipuðu róli og við skiptumst á að kljúfa vindinn fyrsta þriðjunginn.  Þórður Sigurvinsson hægði þá á sér og dróst aftur úr, en við Sigurður Freysson hlupum áfram saman fram á ca 24 km.  Þá vorum við farnir að bæta aðeins í hraðann undan vindinum.  Við höfðum verið á 5:10 meðalpace-i fram yfir hálft þonið.  Ég bætti síðan hægt og rólega í hraðann, sem varð til þess að Siggi dróst örlítið afturúr (en kom síðan bara rúmlega mínútu á eftir mér í mark), og náði að halda ágætistempói þangað til mótvindurinn skall á þegar 3km voru eftir.
Niðurstaðan varð 3:34:08, sem þýðir ca 5:04 meðalpace.
Markmiðið fyrir hlaupið var að komast í gegnum það á sæmilegum tíma en þó án þess að fá hina ömurlegu sinadrætti, og nota hlaupið til að æfa mig í að drekka og nærast samviskusamlega eftir fyrirfram ákveðnu plani.  Það tókst þetta ljómandi vel, ég fann mig betur og betur eftir því sem á hlaupið leið, stóð við næringarplanið upp á punkt og prikke, og var enga stund að jafna mig eftir á.  Hef ekki fundið fyrir neinum harðsperrum eða stífleika, og skokkaði léttilega 7km í hádeginu í dag.
Tíminn í hálfu var 1:48:36 (meðalpace 5:10) þannig að seinni helmingurinn var á 1:45:32.
Ég tók líka að gamni splittin á hverjum 10km og gaman að sjá að það var hægt en jafnt vaxandi hraði alla leið:
10km - 52:28
20km - 51:12
30km - 50:06
40km - 48:56
Svo er bara að ná að hlaupa "örlítið" hraðar næst án þess að lenda í krísu :)


Meira maraþon...

Jæja loksins nenni ég að skrifa aftur!
Er búinn að vera duglegri við ýmislegt en blogg undanfarið, en þó ekkert sérstaklega duglegur almennt ;)
Fór þó í BláaLónskeppnina um daginn, fyrsta alvöru hjólakeppnin hjá mér í heilt ár!  Gekk bara þokkalega, endaði í ca 14. sæti á tímanum 2:07, sem er persónuleg bæting - en leiðin reyndar orðin greiðfærari en áður.  Best var þó að fá staðfest að maður geti ennþá hjólað, eftir nær algjört hjólastopp í tæpt ár.
Síðan er ég loksins búinn að púsla mér saman sæmilegum keppnisracer eftir að sá gamli eyðilagðist um leið og vinstri höndin á mér í september í fyrra.  Þ.a.l. er orðið mun skemmtilegra að hjóla núna og ég því verið á hjólinu flesta daga undanfarið.
Um síðustu helgi skellti ég mér síðan í Leggjabrjótshringinn.  Skokkaði/rölti yfir endilanga Esjuna (23km) á rúmum 4klst, hjólaði síðan inn í Hvalfjarðarbotn (36km) á 1:20.  Ákvað þá að segja það gott og kláraði því ekki hringinn.  En þrælskemmtileg tilbreyting og hef mikinn áhuga að reyna aftur á næsta ári - þyrfti bara að æfa fjallaskokkið aðeins betur fyrst.
Á laugardaginn er síðan Mývatnsmaraþon og ég var að ljúka við að skrá mig í heilt maraþon.  Eins og góður maður sagði:  "Það tekur því ekki að fara norður fyrir minna!"
Þetta verður 4. keppnishelgin í röð (Grindavíkurþríþraut - Bláalónskeppnin - Leggjabrjótur - Mývatn) og sennilega bætist sú 5. við með ólympískri þríþraut eftir rúma viku :)

Þó það sé nú gaman að keppa þá fer nú að koma tími á meiri reglu/samfellu í æfingum aftur.  En sennilega verður þetta svona líka eftir Spánarferðina í júlí.  Þá bíða eftir manni hjólreiðakeppnir í ágúst, ReykjavíkurMaraþon og fleira skemmtilegt :)

Aðeins á alvarlegri nótunum...  Allt er þetta brambolt á manni lítilfjörlegt miðað við það sem vinur okkar hann Tjörvi Freyr gengur í gegnum þessa dagana.  Þríþraut, Maraþon, jafnvel Ironman eða hvað sem er bliknar í samanburði við baráttu 2ára drengs við krabbamein.  Ef einhver ykkar kannast við Frey og Elfu þá kíkið á síðuna þeirra og sendið þeim kveðju - http://www.barnaland.is/barn/19449

En... rúmlega hringur í kringum Mývatn framundan hjá mér - vonandi án heimsóknar í sjúkratjaldið á eftir ;)


Grindavíkurþríþraut

Það var víst kominn tími á að fara að hreyfa sig eftir post-maraþon-hvíld í 2 vikur.
Fór í Grindavíkurþrautina með hangandi haus, búinn að eyða meiri tíma og orku í flest annað en að undirbúa mig fyrir keppni. 
Sundið (800m) var með því rólegra sem ég hef afrekað, var tæpar 15mín með sprettinn, og fannst það bara erfitt og leiðinlegt.  Greinilega ekki hægt að komast upp með það endalaust að forðast sundlaugina nema það sé keppni :p
Skiptitíminn var síðan í stíl við sundtímann - minn lélegasti á þríþrautarferlinum.
En svo fór þetta að skána þegar maður var kominn af stað á hjólinu, leið vel, tók fram úr nokkrum (sem er alltaf jafngamanSmile) og bætti alltaf aðeins í hraðann.
Seinni skiptingin gekk ágætlega, en virðist þó ekki hafa verið mjög hröð...
Hlaupið var þolanlegt, leið ágætlega framan af en orðinn hálfþreyttur á þessu undir lokin.
2. sætið varð niðurstaðan, á eftir Torben "the beast", og get ekki kvartað mikið yfir því. 
En nú er það annaðhvort að fara að æfa eins og maður aftur - eða bara hætta þessu Undecided

Kemur í ljós á næstu dögum hvort verður...


Passa sig að fara ekki of geyst

... af stað aftur

Fór í hádeginu í gær og synti heila 500m :D - lá síðan í heita pottinum á eftir og hvíldi mig ;)
Síðan voru það smá styrktaræfingar í hádeginu í dag og á eftir ætla ég að kíkja við á hlaupaæfingu en nenni varla að fara heila 13km.

Nú vantar mann eiginlega markmið svona til að mótivera sig á æfingar...


Aftur af stað

Fór að hlaupa í gær, 7km um Breiðholtið, frábær tilfinning - formið allt til staðar og mann langar bara í meira.  Ætla samt að taka því frekar rólega út þessa viku, hlaupa smá, synda smá og hjóla smá.  Svo er þríþraut á sunnudaginn í Grindavík!  Grin

Marathon for alle pengene

Þetta var sko maraþon fyrir allan peninginn!
Við áttum fína daga í Köben fram að hlaupi, kíktum á expo-ið, heilsuðum upp á hlaupafélagana og versluðum aðeins.  Ég tók einn rúnt um Strikið en lá að öðru leyti í rólegheitum heima á hótelinu, en Kristín var dugleg bæði á Strikinu og í Fields :)
Ég tók smá hlaupatúr á föstudagsmorgninum (5km) út að Litlu hafmeyjunni og tilbaka, og prófaði þannig síðustu km af maraþonleiðinni.  (Hótelið okkar var frábærlega staðsett, alveg við maraþonleiðina, ca 800m frá markinu)
Ég var orðinn létt stressaður kvöldið fyrir hlaup og um morguninn fram að starti.  Fór á fætur kl.6 - morgunmatur og síðasti sopinn af carbo-loadinu, slakaði síðan á í klukkutíma upp í rúmi.  Skokkaði síðan með Trausta niður að startsvæðinu og vorum við komnir þangað 45mín fyrir start.  Þar hittum við Ívar, Pétur Ísl og Gumma og síðan Jóhönnu, Sigga Hansen og Ingu Maríu.  Við reyndum að vera í skugga fram að starti, en sólin var strax farin að baka okkur kl.9 og alveg klárt að það yrði orðið vel heitt þegar maður færi að berjast við seinni helminginn af hlaupinu.
Ég var með heilmikla áætlun um að drekka nú nóg af vökva, rétta vökvann á hverjum tíma, og var sötrandi létta kolvetnis- og saltblöndu alveg fram að startinu.  Var síðan með 1/2l flösku með mér sem ég drakk á fyrstu 5km.  Kristín var síðan með aðra svoleiðis flösku og ströng fyrirmæli um að rétta mér hana á 24-26km.
Við Ívar og Trausti komum okkur fyrir rétt framan við 3-tíma blöðrurnar í startinu og ætluðum að reyna að fylgjast að fyrstu km og vera í námunda við og helst aðeins á undan blöðrunum í byrjun.
En þá byrjaði fjörið!
Troðningurinn var töluverður í byrjun (amk meiri en í Rvk-maraþoni í fyrraWink) og ég ákvað fljótlega að reyna að slaka á og vera bara aðeins fyrir aftan hópinn sem fylgdi 3-tíma blöðrunum.  Ég sá að Trausti kom sér fyrir alveg við blöðrurnar og Ívar var aðeins fyrir framan hópinn.
Fyrstu 5-7km var ég aðeins þungur á mér og fannst mér ég hafa meira fyrir þessum hraða en ég átti von á, en síðan varð það léttara og ég fór að rúlla nokkuð léttilega á 4:15pace-inu.  Ég sleppti fyrstu drykkjarstöðinni eins og ég hafði planað þar sem ég var ennþá að drekka af brúsanum mínum.  En drakk annars samviskulega 2-3 glös (vatn og powerade í bland) á öllum drykkjarstöðvunum.  Milli 8 og 9 km náði ég Ívari sem hafði hægt á sér og var kominn aftur fyrir hópinn í kringum 3-tíma hérana.  Ég rúllaði síðan áfram á mínum hraða og við Löngulínu á ca 12km náði ég Trausta sem var þá líka farinn að hægja á sér.  Hann hafði orð á að þetta væri erfitt og hann væri að spá í að hætta... (Hann var búinn að vera með hálsbólgu í nokkra daga á undan!)
Ég hélt mínum hraða og var áfram ca 100m fyrir aftan 3-tíma hérana.  Þegar við hlupum í gegnum marksvæðið við Christiansbryggju (16km búnir) tók ég meðvitaða ákvörðun um að hægja aðeins á mér og reyna að spara smá orku fyrir seinnihlutann, þannig að ég reyndi að vera á 4:20-4:25pace-i næstu 3-4km.  Kristín var mætt við rúma 16km og hvatti mig áfram, og það var alveg frábært að sjá hana - þá var maður ekki alveg jafn einn í heiminum eitthvað ;)
Á þessum næstu km (frá 16 upp í 20) var smá hækkun á leiðinni og hæsti punktur var við Carlsberg-bro rétt áður en hlaupið var hálfnað.  En næstu km þar á eftir (20-22) hallaði alltaf aðeins undan fæti og þá rúllaði maður nokkuð áreynslulítið á 4:00pace-i.  Ég man ég hugsaði að það væri ágætt að vinna sér inn nokkrar "ókeypis" sekúndur :p 
Við 21,1km var ég á 1:30:30 skv minni klukku (1:30:24 skv úrslitasíðunni) sem þýddi að ég var nákvæmlega á minni fyrirframgefnu áætlun til þess að ná í ca 3:00 lokatíma.  En... planið þá var auðvitað að hlaupa helst aðeins hraðar seinni hlutann!
Við ca 23km var 180° beygja á leiðinni og þá sá ég að Trausti var rétt á eftir mér (30-60sek) og Ívar ekki langt þar fyrir aftan, þannig að þeir höfðu báðir náð að halda sínu eftir að ég fór fram úr þeim.  Mér leið áfram bara nokkuð vel, bæði fætur og lungu í góðu ástandi.  Ég var samt farinn að undirbúa mig andlega undir að þetta yrði fljótlega töluvert erfiðara og reyndi að rifja upp hvaða jákvæðu hugsanir ég ætlaði að nota þegar þar að kæmi.  Ein af þeim var einmitt að láta sig hlakka til að sjá Kristínu aftur með brúsann minn og hvatningu.  Kristín stóð auðvitað við sitt, var klár á þessum fína stað rétt við 25km og ég tók brúsanum fegins hendi.
Ég var töluvert fljótari með þennan en þann fyrri (sem gefur til kynna að eitthvað var maður orðinn þyrstur!).
En stuttu seinna fór allt að fara á verri veg.  Rétt fyrir 27km fékk ég skyndilega slæma þreytuverki framan á lærin svo jaðraði við sinadráttum, og þurfti að hægja verulega á mér.  Eftir að hafa reynt að hlaupa það úr mér þurfti ég að stoppa í smástund og teygja á þeim, en fann þá strax fyrir krampastingjum bæði aftan í læri og í kálfa.  Rétt við 27km hafði ég séð Trausta fara fram úr mér, en þar virðist leiðin hafa verið eitthvað skrýtin því á smá kafla fórum við ekki alveg sömu leið, þannig að hann tók aldrei eftir því að hafa farið fram úr mér.
Upp úr 29km var ég kominn með slæma krampa í bæði kálfana og lærin og eiginlega hættur að geta hlaupið af neinu viti.  Hljóp 5-1500m þar til vöðvarnir læstust og labbaði þá 1-300m.  Ég var þá búinn að sjá Ívar fyrir aftan mig og átti von á honum fram úr mér hvað úr hverju, en hann náði mér við ca 32-33km.  Hann harðneitaði að skilja mig eftir og við skokkuðum og röltum saman restina af leiðinni.  Hann var óspar á að skipa mér bæði að labba ekki og mikið (og helst aldrei að stoppa) og eins að hlaupa ekki of hratt þess á milli.  Ég var nú tregur til að fara alveg eftir þessum ráðum, fyrst vegna þess að ég var alltaf að vonast til að geta farið að hlaupa almennilega aftur og seinna vegna þess að ég gat bara varla hlaupið lengur (með hægri kálfann í stanslausum krampakippum síðustu 5km) og vildi því helst bara ganga.  En að mestu fólst þessi kafli hlaupsins í því að reyna að labba sem minnst og stoppa sem sjaldnast og komast "hlaupandi" að næstu drykkjarstöð.
Í mark komumst við þó á endanum, endaspretturinn fólst í því að þrjóskast til að hlaupa (í stað þess að ganga), tíminn var 3:26:45.
Líkamlega var ég í ágætu ástandi þegar ég var kominn í mark en andlega frekar dapur.  Það var svo sem stutt í sinadrættina í löppunum en það var varla að ég væri þreyttur, enda búinn að fara ansi rólega þessa síðustu 15km.  Ég fór strax að troða í mig vökva, vatni, powerade og 1 bjórglas, en klikkaði reyndar á bæði salti og einhverri fastri fæðu.
En tæpum klukkutíma eftir að ég kom í mark fór mér að líða ansi mikið verr.  Fór að finna fyrir hausverk og var flökurt og varð að mér skilst ansi fölur á stuttum tíma.  Þá er nú gott að hafa lækni við höndina og Trausti skipaði mér inn í sjúkratjald þar sem ég rétt hafði það upp á bedda áður en ég leið næstum því útaf.  Dönsku sjúkraliðarnir tóku hjá mér blóðþrýsting þar sem mér skilst að fyrstu tölur hafi hljóðað upp á ca 79 yfir 50, sem er víst ansi lágt (hefðbundnar tölur hjá mér eru t.d. 125 yfir 70) og það tók töluverðan tíma (og vökva) áður en efri mörkin skriðu yfir 100.
En þarna fékk ég semsagt 2 poka af gæðavökva beint í æð og mýkjandi nudd á meðan, og gekk út tæpum 2klst seinna kátur með danska heilsugæslu.
Ég var semsagt búinn að tapa mun meiri vökva í hlaupinu en ég hef áður prófað, og að auki var meltingin ekki alveg að ráða við þann vökva sem ég reyndi að innbyrða, af því að ég var að reyna að hlaupa það hratt.  Kannski hefði maður líka þurft að vera búinn að drekka enn meira síðustu dagana fyrir hlaupið þar sem hitinn í Köben var jú töluvert meiri en hefur verið hér heima undanfarna mánuði.  Mér reiknast til að ég hafi innbyrt á einn hátt eða annan um 6 lítra frá því hálftíma fyrir start og þangað til ég yfirgaf sjúkratjaldið, og samt var ég þá ennþá þyrstur. 
En það er engin lygi að svona þjónusta í sjúkratjaldinu svínvirkar - ég var orðinn alveg bærilegur um leið og ég labbaði þaðan út, gekk síðan í rólegheitunum með Kristínu heim á hótel, fékk mér þar aðeins að borða og drekka og var þá orðinn bara fullfrískur.  Meltingin var síðan komin í fínt lag fyrir nautasteikina um kvöldið (sem betur fer!) og fyrir utan harðsperrur aldarinnar undanfarna daga þá hef ég ekki fundið fyrir neinum eftirköstum.

Kristín stóð sig auðvitað eins og hetja bæði í að styðja mig og hvetja fyrir og í hlaupinu og við að hjúkra mér strax á eftir - og auðvitað í verslununum! Grin  


Komin til Köben

Jibbíí!  Loksins kominn til Köben og nú er farið að styttast verulega í skokkið.
Ég er búinn að hvíla mig nokkuð samviskulega frá hlaupunum undanfarnar 2 vikur og búinn að fara í gegnum allt þetta hefðbundna sem hvíldartímanum fylgir (óróleiki, draugaverkir hér og þar og kvef- og magapestarparanoja á háu stigi).
En hingað er ég kominn eftir 20vikna undirbúning og til í tuskið.

Við Kristín duttum hér inn á hótel í dönsku kvöldmyrkri svöng og þreytt - en erum búin að bæta vel úr því fyrrnefnda ;)
Það eina sem hrjáir okkur þessa stundina er söknuður, en við skyldum afkvæmið eftir hjá foreldrum Kristínar.  En henni líður örugglega betur með það en okkur.
En við stefnum amk að því bæði tvö að gera hana stolta af foreldrunum - ég með sæmilegum maraþontíma og Kristín með skipulögðu áhlaupi á danska kaupmenn.

Ef vel gengur þá má vera von á afrekssögum hér, ég geri amk fastlega ráð fyrir að Kristín standi sig... 


Flughlaup

Fór í Flugleiðahlaupið í gær, þóttist ætla að taka það sem skynsamlega maraþonpace æfingu... Það entist í 500m, síðan var bara látið vaða.  Man ég hugsaði eitthvað um að ég gæti þá alltaf bara slakað á niður á maraþonpace-ið ef þetta færi að verða erfitt.  Held að sú hugsun hafi gufað upp þegar ég fór að sjá aftan á Sumarliða og Trausta í Skerjafirðinum ;)  Þá kom auðvitað ekkert annað til greina en að ná þeim félögum.  Þegar ég síðan var kominn fram úr þeim á Njarðargötunni þá var bara að halda þessa síðustu 2km og sjá hver bætingin yrði.
Tíminn varð 27:24, sem þýðir ca 1:30 í bætingu frá því 2005 þegar ég fór síðast þessa 7km.

Langa æfingin síðasta laugardag gekk vel, tæpir 29km.  Rólega fyrst en síðan 2 góðar hraðari rispur ca 5km hvor.  Mér tókst reyndar að verða mér úti um væna blöðru á litlutá hægri fótar, en þar sem það eru einu meiðslin í þessum maraþonundirbúningi (og þau einu síðan ég handleggsbrotnaði í sept) þá get ég sennilega ekki kvartað mikið.  7-9-13

Rólegt í dag, en röskir 22km á dagskránni á morgun.
Síðan stutt þríþraut á sunnudaginn í Kópavogi...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jens Viktor
Jens Viktor
hleypur, syndir og hjólar...

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Síður

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband