Framfarir

Jæja, planið í vor var að nota bloggið til að blaðra um íþróttaiðkun og pælingar, bæði til að hvetja sjálfan mig áfram og til að fá smá útrás fyrir allar skrýtnu pælingarnar sem detta inn í kollinn á æfingum og strax að þeim loknum.  Það varð nú lítið úr skriftum á þeim tíma... en gerum aðra tilraun nú.

Þetta sumar er að mörgu leyti búið að vera með besta móti æfingalega séð.  Eftir lélegt ár í fyrra tókst mér í vetur að ná smá stíganda í æfingum og í vor tók ég góða törn og náði að koma mér í gott form fyrir ólympísku þríþrautina um hvítasunnuhelgina.  Keppnin gekk að vísu ekki alveg upp fyrir mig þar sem keðjan slitnaði á hjólinu og keppnin þar með búin fyrir mig.  En formið var til staðar.  Næst var Bláalónskeppnin, ein af mínum uppáhaldshjólakeppnum.  Þar gekk þokkalega, náði 5.sæti, þrátt fyrir endurtekin keðjuvandræði.  Endanlega staðfestingin á góðu formi kom síðan í Jónsmessuhlaupinu þar sem mér tókst loksins (með góðri aðstoð Trausta V.) að komast undir 40mínúturnar í 10km (39:43).  En frá Bláalónskeppninni hafa hlaupin verið í algjörum forgangi hjá mér og alltof lítið farið fyrir sund- og hjólaæfingum.  En markmið sumarsins voru líka einkum hlaupatengd, 10km undir 40mín, klára Laugaveginn án þess að lenda í krísu (tókst þrátt fyrir ömurlegt veður) og síðan heilt maraþon í Rvk í ágúst.

Hingað til hef ég litið á hlaupin sem mína veiku hlið í þríþrautarvafstrinu, sundið er það lítill hluti af þríþrautinni og ég hingað til fyrir ofan meðallag í þeim hluta hvort eð er.  Hjólreiðarnar eiga síðan að vera mín sterka hlið þar sem ég hef stundað þær alla ævina, og sem keppni í 12 ár.  Þess vegna leit ég á þetta ár sem hlaupaárið mikla, núna ætla ég að sjá hvað ég get í hlaupunum og hversu erfitt það reynist mér að koma hlaupagetunni í sambærilegt ástand og hjólagetunni.

Núna í kvöld var ég að bæta mig í 5km, hljóp Vatnsmýrarhlaupið á 19:15, þannig að framfarirnar halda áfram.  Nú fer maður að verða virkilega spenntur fyrir Rvk-maraþonið.  Ég er farinn að hlakka mikið til að takast á við 42km og sérstaklega að komast að því hvernig lappirnar standa sig eftir því sem líður á hlaupið.  Auðvitað ætti ég að geta treyst mér vel í þetta, eftir bæði margar hjólreiðakeppnir yfir 2-4klst og Laugaveginn, sem tók 7klst.  En maraþonið er öðruvísi, það er langt, tilbreytingalítið og allt á malbiki.  Maður verður víst að bera virðingu fyrir því og nálgast verkefnið skv. því.  Aðalspurningin hjá mér núna er hvaða tíma ég á að stefna á og síðan hvernig ég að nálgast hlaupið út frá því hvert markmiðið verður, þ.e. á hvaða pace-i ég legg af stað og hvort og hvernig ég breyti hraðanum í hlaupinu.

Kannski eru þetta óþarfa áhyggjur þegar maður fer í fyrsta maraþon, kannski á maður bara að hlaupa þetta á sæmilegum hraða, og sætta sig svo við að hægja á sér á síðustu 10km.  En þetta er hluti af sportinu fyrir mér - pælingar, strategía, hvaða áhrif smáatriðin hafa á heildarútkomuna.

Jæja, en ef þetta maraþon gengur nú sæmilega, þá er maður amk kominn með sæmilegt sjálfstraust í væntanlegan Ironman, hvort sem hann verður á næsta ári eða eftir 2-3 ár.  Svo er bara að nota veturinn til að byggja aftur upp hjólastyrk og bæta sig í sundinu... og auðvitað halda áfram að bæta sig í hlaupunum, og muna styrktaræfingar, teygjur...  :)

En fyrst er það smá tempóæfing í fyrramálið og svo ca 22km á laugardaginn, síðan trappa sig niður og hvíla fyrir þonið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jens Viktor
Jens Viktor
hleypur, syndir og hjólar...

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Síður

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband